Innlent

Segja Háskólann í Reykjavík ekki á flæðiskeri staddan

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/E.Ól.

„Háskólinn í Reykjavík hefur safnað mjög sterkum sjóðum á seinustu tveimur árum og innan við fimm prósent af tekjum skólans hafa komið frá aðilum sem hafa lagt upp laupana síðustu daga," segir Jóhann Hlíðar Harðarson, upplýsingafulltrúi Háskólans í Reykjavík, inntur eftir stöðu skólans en Vísi bárust upplýsingar um að tveimur kennurum við skólann hefði verið sagt upp störfum.

Jóhann staðfesti að uppsagnirnar hefðu átt sér stað fyrir nokkrum vikum en kvað þær eingöngu hafa verið á faglegum grundvelli. Þá sagði hann engar frekari uppsagnir fyrirhugaðar þar sem háskólinn sæi fram á að þurfa á öllum sínum kennurum að halda á næstunni vegna þess að spurn eftir háskólanámi ætti eftir að aukast.

Við Háskólann í Reykjavík kenna um það bil 25 erlendir kennarar og þiggja einhverjir þeirra laun sín í erlendum gjaldmiðlum. Runólfur Birgir Leifsson, fjármálastjóri skólans, sagðist ekki geta nefnt í fljótu bragði hve margir kennaranna þægju laun sín í öðrum gjaldmiðlum en krónu en kostnaðaraukningu vegna gengishruns mætti ef til vill áætla nálægt 15 - 20 milljónum króna á ársgrundvelli.

„Við fórum strax í þær aðgerðir, þegar Glitnir var þjóðnýttur, að bjarga öllum okkar peningum sem við vorum með í sjóðum bankanna og ég held að við höfum sloppið alveg ótrúlega vel út úr þessu. Við fengum ríkisskuldabréf upp á nokkur hundruð milljónir og restina svo nánast á innlánsreikninga svo það er ekki mikil óvissa hjá okkur. Það er eitthvað smáræði eftir í sjóðum sem á eftir að koma í ljós hvernig fer með en við höfum ekki þungar áhyggjur af því," sagði Runólfur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×