Innlent

Hæstiréttur staðfestir dauð og ómerk ummæli um Magnús

Magnús Ragnarsson
Magnús Ragnarsson

Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms í meiðyrðarmáli Magnúsar Ragnarssonar fyrrum sjónvarpsstjóra Skjás eins gegn 365 miðlum ehf. Ummælin birtust í tveimur blöðum félagsins, DV og Fréttablaðinu undir fyrirsögnunum „Maggi glæpur" og „Geðþekkur geðsjúklingur".

365 miðlar ehf skutu málinu til Hæstaréttar þann 23.janúar 2008. Krafðist félagið sýknu en Magnús krafðist staðfestingar héraðsdóms sem hafði dæmt ummælin dauð og ómerk.

Ummælin sem um ræðir eru:

1. „Á sama tíma er allt í tómu tjóni í einkalífi yfirmanna stöðvarinnar, þeirra Magnúsar Ragnarssonar og......"

2. ......„gengur yfirmönnum stöðvarinnar ill að fóta sig í einkalífinu."

3. „Maggi glæpur"

4. „Geðþekkur geðsjúklingur"

Í dómi Hæstaréttar segir að „einkalíf manna, heimili og fjölskylda njóti friðhelgi samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í frásögn af hjúskaparslitum einum og sér felst þó ekki brot á þeirri friðhelgi."

Þar segir hinsvegar að séu ummælin lesin í samhengi við meginmál fréttarinnar þyki þau fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir.

„Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um ómerkingu framangreindra ummæla og bótaábyrgð áfrýjanda staðfest. Þegar litið er til þeirra sjónarmiða sem vísað er til í héraðsdómi og fordæma Hæstaréttar er fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 600.000 krónur," segir í dómnum.

Þá er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjanda verði gert að standa straum af birtingu dómsins með þeim hætti sem þar er getið, þó þannig að rétt þykir að miða við tvær birtingar.

Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefnda 240.000 krónur til að standa straum af þeim. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Hér má sjá dóma Hæstaréttar og Hérðasdóms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×