Íslenski boltinn

Davíð Þór: Okkar eigin aumingjaskapur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson, fyriliði FH.
Davíð Þór Viðarsson, fyriliði FH. Mynd/E. Stefán
„Það þarf eitthvað mikið að gerast til að við tökum þetta af þeim," sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, um titilvonir liðsins eftir að FH tapaði fyrir Fram í kvöld, 4-1.

„Við vorum aldrei tilbúnir í þessum leik og við getum engu öðru um kennt heldur en okkar eigin aumingjaskap. Ef það er ekki hægt að koma rétt stemmdur til leiks þegar nokkrar umferðir eru eftir og liðið í bullandi titilbaráttu þá er eitthvað mikið að," sagði Davíð.

Fram komst yfir undir lok fyrri hálfleiks með sjálfsmarki FH. „Fram að því voru þeir ekki búnir að skapa sér mikið og mér fannst við vera með ágæt tök á leiknum. Svo ætluðum við að byrja eins og menn í seinni hálfleik en fáum á okkur þrjú mörk á tíu mínútum eins og algerir sauðir. Við vorum ekkert líkir sjálfum okkur í dag og mikil deyfð yfir liðinu."

Dómgæslan var umdeild í kvöld en Davíð Þór neitaði að kenna dómurunum um ófarirnar. „Við töpuðum þessum leik sjálfir en það voru vissulega nokkur atriði sem orkuðu tvímælis."

Keflavík er nú með átta stiga forystu á FH sem á reyndar leik til góða. Þessi lið mætast á sunnudaginn í Kaplakrika þar sem Keflvíkingum nægir jafntefli til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Við verðum að hysja upp buxurnar og vinna þennan leik á sunnudaginn til að halda möguleikum okkar opnum. Við verðum svo að vona að Keflavík misstígi sig gegn Fram í síðustu umferðinni," bætti hann við.

FH á inni leik gegn Breiðabliki og mætir Keflavík og Fylki í lokaumferðunum. FH verður að vinna alla þessa leiki og treysta á að Keflavík vinni ekki Fram í lokaumferðinni - og helst tapi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×