Innlent

Neyslan minnkar en meira borgað fyrir neysluvörur

MYND/Heiða

Velta í dagvöruverslun dróst saman um tvö prósent á föstu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra. Þetta sýna nýjar tölur frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þegar horft er til breytilegs verðlags jókst velta dagvöruverslunar hins vegar rúm 18 prósent miðað við sama mánuð í fyrra.

Segir í tilkynningu Rannsóknasetursins að þetta sýni að neysla landans minnki en neytendur borgi meira fyrir matinn en áður. Verð á dagvöru hækkaði um rúman fimmtung frá ágúst í fyrra til ágúst á þessu ári og sama þróun á sér stað í öðrum tegunda verslunar.

Þá sýna tölur Rannsóknarsetursins að sala á áfengi hafi minnkað um 4,5 prósent í ágúst miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi en hún jókst um 5,4 prósent ef miðað er við breytilegt verðlag. Verð á áfengi hækkaði um rúm tíu prósent í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Sömu sögu er að segja af sölu á fötum og húsgögnum, hún dregst saman á föstu verðlagi en eykst í krónum talið vegna hækkandi verðs milli ára. Hins vegar varð samdráttur í skóverslun bæði með tilliti til fasts verðlags og í krónum talið.

„Þrátt fyrir miklar verðhækkanir má ætla að verslunin hafi að nokkru leyti tekið á sig hækkanir. Gengisvísitalan hækkaði á einu ári, frá ágúst í fyrra til ágúst á þessu ári, um 32% og ættu innfluttar vörur því að hafa hækkað um sama hlutfall ef innkaupsverð hefði haldist óbreytt og ef gengisáhrifin hefðu öll komið fram í verðlagi. Verðhækkanir á sérvörum eins og fötum, skóm og húsgögnum hafa verið mun minni en gengisáhrifin segja til um," segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×