Innlent

Hvatti ráðherra til þess að sniðganga hátíðir á ÓL

Erla Ósk Ásgeirsdóttir.
Erla Ósk Ásgeirsdóttir.

Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins hvatti flokkssystur sína, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, til þess að sniðganga bæði opnunar- og lokahátíð Ólympíuleikanna í Peking í sumar og sýna þannig andstöðu sína við mannréttindabrot Kívnerja. Ráðherra sagðist hins vegar fyrst og fremst fara til þess að styðja íslenska íþróttamenn.

Erla Ósk Ásgeirsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Heimdallar, kvaddi sér hljóðs í fyrirspurnartíma og sagði að menn hefðu vonað að staðsetning Ólympíuleikanna nú yrði til þess að bæta stöðu mannréttinda í Kína. Hins vegar hefði Amnesty International sagt að Ólympíuleikarnir nú verið notaðir í Kína til þess að réttlæta fangelsun fólks án réttarhalda.

Sagði Erla Ósk að ekki væri hægt að gefa alræðisstjórninni í Kína afslátt á grundvallarmannréttindum. Skiljanlegt væri að ráðamenn vildu styðja íslenska íþróttamenn og það væri hægt með því að vera á pöllunum á leikunum. Hins vegar byðu kínversk stjórnvöld til opnunar- og lokahátíðar leikanna og þær ætti að sniðganga. Spurði Erla Ósk ráðherra hvort hún hefði endurskoðað ákvörðun sína að fara á opnunarhátíð Ólympíuleikanna.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði íslensk stjórnvöld alltaf standa með mannréttindum og benti á að utanríkisráðherra hefði rætt við sendiherra Kína hér á landi vegna stöðu mannréttindamála. Með því að fara á leikana væri ekki verið að gefa afslátt á mannréttindum heldur fyrst og fremst að styðja við íþróttaforystuna og fulltrúa Íslands á leikunum.

Benti menntamálaráðherra á að þó að fulltrúar Íslands hefðu farið á Ólympíuleikana í Moskvu árið 1980 gæti það engan veginn talist samþykki á grimmdarverkum Sovétmanna. Þá vísaði hún til þess að vetrarólympíuleikarnir yrðu í Rússlandi árið 2014 og sagði að þótt Rússland væri lýðræðisríki myndu koma upp spurningar, til að mynda varðandi Tsjetsjeníu. Spurði hún hvort menn ætluðu að nota friðarleikana sem Ólympíuleikarnir væru stundum og stundum ekki.

Erla Ósk spurði þá ráðherra hvort til greina kæmi að hún ræddi við kínverska ráðamenn um stöðu mannréttinda þegar hún færi á Ólympíuleikana. Sagðist ráðherra reiðubúinn til þess en hann færi fyrst og fremst á leikana til þess að styðja við íslenska íþróttamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×