Innlent

Beitir sér ekki fyrir auglýsingabanni í kringum barnatíma

MYND/Valli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hyggst ekki beita sér fyrir lagasetningu sem bannar auglýsingar í kringum barnatíma í sjónvarpi. Hún treystir fjölmiðlum og foreldrum til þess að meta hvað er best fyrir börnin.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti á Alþingi í dag athygli á málþingi sem fram fór í síðu viku. Þar hefði komið fram að Ísland yrði að innleiða nýja sjónvarpstilskipun frá ESB. Þá hefði einnig komið fram að stór hluti auglýsinga í kringum barnatíma væru auglýsingar á skyndibita og óhollustu og að slíkar auglýsingar væru algengari í Ríkissjónvarpinu en Stöð 2.

Benti Ásta á að nágrannaþjóðir hefðu tekið á þessu meðal annars vegna vaxandi offitu hjá börnum. Þannig bönnuðu Svíar og Finnar slíkar auglýsingar í kringum barnatíma og Danir hefðu strangar reglur. Þá vísaði hún til þess að útvarpsstjóri hefði lýst því yfir að það myndi ekki breyta neinu fyrir RÚV að hætta að auglýsa á þessum tímum. Spurði Ásta því ráðherra hvort hún hygðist beita sér fyrir því að Ríkisútvarpið, sem heyrði undir menntamálaráðuneytið, auglýsti ekki óhollustu á þeim tímum sem börn horfðu á sjónvarp.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagðist í haust myndu flytja fjölmiðlafrumvarp á þingi sem myndi snerta mjög tilskipun ESB. Í hinum nýju fjölmiðlalögum yrðu hins vegar ekki lagaákvæði sem bönnuðu auglýsingar í kringum fjölmiðla. Hún myndi láta fjölmiðlum það eftir að taka ákvarðanir í málinu.

365 hf. ætlaði ekki að breyta þessu hjá sér en það gilti annað um RÚV. Sagðist hún vilja taka það upp í tengslum við samning RÚV og menntamálaráðuneytisins og hún myndi ræða málið við útvarpsstjóra. Þorgerður sagði enn fremur að það ætti að treysta foreldrum að meta hvað væri best fyrir börnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×