Innlent

Auglýsa Ísland sem ódýran áfangastað

MYND/Valli

Forsvarsmenn Icelandair hafa hrint af stað auglýsingaherferð á markaðssvæðum sínum í útlöndum þar sem fólki er bent á að hversu hagkvæmur áfangastaður Ísland er orðið.

Lækkandi gengi krónunnar hefur það í för með sér að gisting, matur og drykkur hér á landi verður ódýrari í erlendri mynt en áður. „Það eru tækifæri í þessu fyrir okkur og eins og ráðamenn þjóðarinnar hafa bent á er ferðaþjónustan auðlind," segir Guðmundur Óskarsson, forstöðumaður markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Icelandair.

Hann segir fyrirtækið hafa ákveðið að setja fjármuni í þessa kynningu, bæði með auglýsingum og fréttatilkynningum. Þar sé ferðamönnum bent á að gengið vinni með þeim. Markaðasstarfið nær til allra svæða Icelandair, hinna norrænu ríkjanna, stærstu borga Evrópu og Bandaríkjanna.

Aðspurður segir segir hann of snemmt að segja til um hvort herferðin skili árangri enda sé hún rétt að fara af stað. Forsvarsmenn fyrirtækisins bindi miklar vonir við þetta samfara öðrum breytingum hjá flugfélaginu. „Við erum að auka þjónustuna með því að bæta við nýju farrými og taka út sætaröð og svo erum við með nýtt afþeyingarkerfi. Þetta gefur Icelandair forskot á markaðnum," segir Guðmundur.

„Í þessari kreppu þá er það þannig að við teljum okkur hafa auðlind sem við getum nýtt og þjóðina vantar gjaldeyri. Hér eru því stór tækifæri," segir Guðmundur enn fremur. Hann segir að félagið eigi í viðræðum við stjórnvöld um það hvernig auka megi straum ferðamanna hingað til lands enn frekar en fyrirtækið hafi lengið unnið að því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×