Innlent

Íslendingar ættu að leita ráða hjá Norðmönnum

Íslendingar ættu að leita til Norðmanna eftir ráðgjöf í þeim þrengingum sem nú standa yfir í landinu, segir Rögnvaldur Hannesson, professor við Viðskiptaháskóla Noregs. Rætt er við hann á norska viðskiptavefnum e24.no þar sem farið er yfir atburði dagsins og þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að leita til Rússa um lán.

Rögnvaldur segir hins vegar að landar sínir eigi fremur að horfa til Noregs en Rússlands. ,,Þegar Noregur gekk í gengum alvarlega bankakreppu á níunda áratugnum var virði hlutabréfanna látið hverfa og svo tók ríkið yfir bankana. Þetta eiga Íslendingar að íhuga vel að gera," segir Rögnvaldur. Íslendingar geti mikið lært af Norðmönnum um það hvernig taka eigi á bankakreppu.

Rögnvaldur segist efast um að íslenska ríkið hafi burði til að bjarga bönkunum vegna stærðar þeirra og spyr enn fremur hvort það yrði á annað borð gott að nýta peninga í slíkt.

Rögnvaldur viðrar þá skoðun að Norðmenn komi að bönkunum þar sem áhrif fylgi því . Með því megi koma í veg fyrir aukin áhrif Rússa hér á landi. ,,Nú sjáum við að rætt er um rússneskt lán fyrir Íslendinga. Það kann að vera góður kostur fyrir norsku ríkisstjórnina að koma í veg fyrir að rússneska ríkisstjórnin bjargi bönkunum," segir Rögnvaldur.

Á það skal þó bent að Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í dag að Rússalánið væri ekki til að bjarga bönkum heldur til að auka gjaldeyrisforðann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×