Innlent

Samfylkingarráðherrar sagðir tala út og suður í loftrýmismáli

MYND/GVA

Ráðherrar Samfylkingarinnar voru sakaðir um að tala út og suður vegna fyrirhugaðrar komu breskra hersveita hingað til lands í desember til loftrýmiseftirlits.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag innti Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra eftir því hvort hann hygðist beita sé fyrir því að koma Bretanna yrði afþökkuð í ljósi þeirra deilna sem þjóðirnar ættu í. Vísaði Steingrímur til fyrri orða Össurar sem starfandi utanríkisráðherra um að það misbyði þjóðinni að fá Breta hingað til loftrýmiseftirlits við núverandi aðstæður.

Benti Steingrímur enn fremur á að Ingibjörg Sólrún Gíslasóttir utanríkisráðherra hefði sagt í gær að Bretar myndu ráða því sjálfir hvort þeir kæmu hingað. Sagði Steingrímur að Össur hefði lýst sig andsnúinn komu Bretanna og skoraði hann á ráðherrann að beita sér fyrir því að koma þeirra yrði afþökkuð.

Ég kyssi ekki vönd kvalara minna

Össur svaraði því til að afstaða hans væri óbreytt og sagði hann skammarlegt hvernig Bretar kæmu fram við gamla vinaþjóð sem hefði aðstoðað þá meðal annars í síðari heimsstyrjöldinni. „Ég kyssi ekki vönd kvalara minna," sagði Össur enn fremur. Sagðist Össur hafa gert það sem hann hefði getað til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en hann hefði jafnframt sagt að ef við næðum sátt við Breta kæmi upp önnur staða.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, spurði í fyrirspurnartímanum hvað væri að gerast í Samfylkingunni. Hér væri verið að ræða um alvarlegt mál af mikilli léttuð. Sagði hún það óheppilegt að Bretar væru næstir í röð þeirra þjóða NATO sem myndu koma hingað til loftrýmiseftirlits og gagnrýndi hún Össur fyrir innihaldslausar yfirlýsingar. Enn fremur spurði hún hvort Ingibjörg Sólrún og Össur töluðu ekkert saman í ljósi misvísandi yfirlýsinga þeirra um komu breskra herþotna.

Össur svaraði því til að hann hefði gert það sem honum bar þegar hann hefði verið starfandi utanríkisráðherra. Hann ítrekaði jafnframt að ef aðstæður breyttust og sátt næðist við Breta myndi afstaðan breytast. Sagði hann að honum væri sama hvað Framsóknarþingmenn segðu, hann hefði fylgt sannfæringu sinni öfugt við þá. Bætti hann því að sem iðnaðarráðherra og fyrrverandi starfandi utanríkisráðherra teldi hann að við sem fullgildir aðilar að NATO ættum að fara fram á það að tekið yrði tillit til stöðu okkar þegar verið væri að skipa hingað sveitum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×