Innlent

Sterkasta vopnið gegn rykmengun hægari akstur

Sterkasta vopnið gegn rykmengun, sem stefnir í nýtt hámark í borginni í dag, er að ökumenn bíla á nagladekkjum aki hægar en vant er.

Þetta segir Hrólfur Jónsson, forstöðumaður framkvæmdasviðs borgarinnar, og að það sé byggt á fenginni reynslu. Rykmengunin aukist mjög ört með auknum hraða. Allir götusóparar, sem borgin hefur afnot af, standa aðgerðarlausir í dag þar sem ekki er hægt að nota þá nema að bleyta fyrst upp í rykinu, en það er ekki hægt í frosti án þess að skapa hálku, sem þá myndi kalla á að saltað yrði yfir.

Það er því úr vöndu að ráða en nú eru götur skraufþurrar, mikið ryk á þeim, nánast logn og um helmingur allra bíla á höfuðborgarsvæðinu á nagladekkjum, en þau ýfa upp yfirborð gatnanna. Hann segir að undanfarin misseri hafi meira verið sópað að vetrarlagi en áður en þrátt fyrir það hafi svifryksmengunin náð nýju meti í nóvember í fyrra. Því til viðbótar sé verið að skipuleggja enn víðtækari sópun, sem væntanlega komi til framkvæmdar innan tíðar. Mengunin leggst illa í fólk sem er með öndunarfærasjúkdóma og ráðleggja læknar því að halda sig innandyra þegar svona stendur á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×