Innlent

Enn á gjörgæslu eftir árás á heimili sínu

Lithái á fertugsaldri er enn á gjörgæslu eftir árás á heimili hans í Bökkunum í Breiðholti aðfararnótt sunnudags. Enginn er í haldi lögreglu vegna málsins.

Samkvæmi hafði verið í íbúð mannsins í Hjaltabakka í Breiðholti í fyrrinótt þegar lögreglu barst tilkynning um að eitthvað hefði farið úrskeiðis. Þegar lögregla og sjúkralið komu á staðinn var húsráðandinn höfuðkúpubrotinn eftir að hafa verið sleginn með barefli. Annar maður hafði hlotið stungusár en meiðsl hans reyndust ekki alvarleg.

Mennirnir eru báðir Litháar búsettir hér á landi. Lögreglan handtók í gær sex samlanda þeirra eftir ábendingar vitna. Þeir voru allir yfirheyrðir og síðan sleppt. Skýrslur voru einnig teknar af fjölda vitna. Enginn er nú í haldi lögreglunnar vegna málsins en henni hefur gengið illa að átta sig á atburðarás næturinnar. Svo virðist sem að um árásin hafi beinst gegn húsráðanda og að árásarmennirnir hafi ruðst inn á heimili hans þar sem þeir réðust á hann.

Fórnarlambið gekkst undir aðgerð í gær og var haldið sofandi í öndunarvél þar til í dag. Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á gjörgæsludeild er maðurinn á batavegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×