Innlent

Óbreytt fylgi flokkanna myndi bæta hlut kvenna á þingi

Óbreytt fylgi flokkanna frá síðustu kosningum myndi bæta hlut kvenna á þingi um 6%. Sjálfstæðismenn standa sig lakast í uppröðun kvenna á listum.

Þetta hefur Jafnréttisstofa reiknað út með því að skoða framboðslista fimm stjórnmálaafla sem buðu einnig fram fyrir fjórum árum eftir kynjum.

Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem er nú með jafn margar konur og karla í fyrsta sætinu. Næst á eftir kemur Vinstrihreyfingin - grænt framboð. Þar næst Samfylkingin, svo Frjálslyndi flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn rekur lestina en hjá sjálfstæðismönnum eru 16,6% frambjóðenda í fyrsta sæti konur.

 

Jafnréttisstofa segir athyglisvert að skoða hvernig frambjóðendurnir deilist niður á líkleg þingsæti og varaþingsæti eftir flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn sé með jafnmarga af báðum kynjum á framboðslistunum í heild, en dreifing þeirra sé þannig að karlar sitji í öruggum þingsætum á meðan konurnar séu líklegir varaþingmenn. Hinir flokkarnir nái að halda jafnari dreifingu.

 

Eftir síðustu alþingiskosningar minnkaði hlutur kvenna úr 34,9% niður í 30,2% þingmanna, sem varð nokkurt áfall fyrir jafnréttisbaráttuna, segir Jafnréttisstofa. Í lok síðasta kjörtímabils voru þær hinsvegar orðnar 36,5%, sem er hæsta hlutfall kvenna sem verið hefur á Alþingi.

 

Ef flokkarnir fengju nú sama fylgi og síðast yrðu konur á þingi 23 eða 36,5%, sem er sama hlutfall og er í dag. Það er aukning upp á 6,3 prósentustig frá niðurstöðum síðustu kosninga, sem verður að teljast góður árangur, segir Jafnréttisstofa í samantekt sinni um svokallaða jafnréttisvog.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×