Innlent

Ósáttur við seljanda radarvara

Engum hjáleiðum virðist vera að treysta þegar kemur að því að fara á svig við lög, eins og seinheppni ökumaðurinn komst að fullkeyptu í gærkvöldi.

Þá var hann tekinn fyrir hraðaakstur á Kringlumýrarbraut, sem ekki er svo sem í frásögu færandi í hans tilviki, enda með margar hraðasektir á bakinu. Í gærdag var honum nóg boðið og keypti hann sér forláta radarvara, til þess að verða var við hraðamælingar lögreglunnar í tæka tíð.

Allt kom þó fyrir ekki og í gærkvöldi datt hann grandalaus inn í radarmæla lögreglu á 117 kílómetra hraða á Kringlumýrarbraut og fær enn eina sektina, núna 50 þúsund krónur, og punkta í ökuferilsskránna að auki. Að sögn lögreglu átti maðurinn erfitt með að leyna vonbrigðum sínum þegar hann var stöðvaður, en svekkelsi hans beindist þó aldrei þessu vant ekki að lögreglunni heldur að seljanda radarvarans. Kvaðst hann ætla að gera það sitt fyrsta verk í dag að skila honum og krefjast endurgreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×