Innlent

Níu hópnauðganir tilkynntar til Stígamóta í fyrra

Níu hópnauðganir voru tilkynntar til Stígamóta í fyrra og fimmtán konur sem þangað leituðu töldu sig hafa verið beittar einhvers konar lyfjanauðgun. Þetta eru umtalsvert fleiri tilvik en síðustu ár. Þá hefur einnig færst í aukana að konur leiti hjálpar vegna mála sem tengjast klámi og vændi.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Stígamóta sem kynnt var í morgun. Samkvæmt henni leituðu fleiri hjálpar í fyrsta skipti árið 2006 en síðasta áratug eða 266. Þeir ofbeldismenn sem bera ábyrgð á vanlíðan þeirra 266 einstaklinga sem leituðu hjálpar eru 365 talsins. Þeir hafa ekki talist jafnmargir frá árinu 1996.

Í fyrra leituðu 20 konur aðstoðar hjá Stígamótum vegna vændis, níu ný mál voru til umræðu en 11 gömul. Þá hefur færst í aukana að konur leiti hjálpar vegna klámvæðingar. Átta konur leituðu eftir aðstoð vegna mála sem tengdust klámi. Þar má nefna myndbirtingar eða hótanir um dreifingu myndefnis af kynlífsathöfnum sem framleitt var með eða án samþykkis kvennannana .

Að mati Stígamóta eru netmiðlar og aðrir fjölmiðlar sem taka við slíku efni áhyggjuefni. Órökrétt skömm og sektarkennd voru meginþemað í ráðgjafarviðtölum í fyrra ásamt öðrum alvarlegum afleiðingum ofbeldis.

Þá voru kærur hlutfallslega fleiri í fyrra en árin á undan. Kærð mál voru 39 eða 10,7 prósent af öllum málum. Árið 2005 voru kærð mál 5,5 prósent af öllum málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×