Innlent

Fá hlutabréf sín gerð upp í evrum í Kauphöll Íslands

Fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöll Íslands geta á næstu vikum fengið hlutabréf sín skráð í evrum. Íslenskir fjárfestar þurfa þá að kaupa evrur vilji þeir fjárfesta í þeim. Óljóst er hvaða áhrif þetta hefur á íslensku krónuna, segir framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar Íslands.

Nokkur íslensk fyrirtæki á borð við Straum Burðarás, Exista, Marel og Össur hafa sóst eftir því undanfarna mánuði að fá að gera upp hlutabréf sín í evrum í Kaupöll Íslands. Nú hefur heimild verið veitt og það þýðir að viðskipti sem fram fara í kauphöllinni og annars staðar verða gerð upp í evrum í stað íslenskra króna.

Einar Sigurjónsson framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar Íslands segir félögin hafa sóst eftir þessu vegna erlendra fjárfesta. Íslenskir fjárfestar þurfi þá að kaupa í evrur til að fjárfesta í þeim félögum sem gerð eru upp í þeim gjaldmiðli. Einar vill ekki segja um hvaða áhrif þetta hafi á íslensku krónuna. Það ráðist eftir fjölda þeirra félaga sem sækist eftir uppgjöri í evrum.



Fyrst um sinn tekur Landsbankinn að sér að gera upp vegna evruviðskipta en stefnt er að því að Finnski Seðlabankinn sjái um það á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×