Innlent

Geiri í Goldfinger braut ekki lög um nektardans

Ásgeir Þór Davíðsson, betur þekktur sem Geiri í Goldfinger, var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness í dag af ákæru um að hafa staðið fyrir nektardanssýningu í lokuðu rými. Dansmey sem einnig var ákærð í málinu var líka sýknuð. Að mati dómsins þótti ekki sýnt að dansinn hafi farið fram í lokuðu rými líkt og bannað er samkvæmt lögreglusamþykkt.

Fyrir dómi lá fyrir viðurkenning sakborninga að dansinn hafi farið fram í rými með fasta veggi á þrjár hliðar og tjald fyrir þeirri fjórðu. Hins vegar taldi Ásgeir ekki um lokað rými að ræða þar sem auðvelt væri að hafa eftirlit með því hvað fram færi inni í einkadansklefanum með því að svipta tjaldinu frá.

Á þessa skýringu féllst dómarinn. Þá segir ennfremur í dómnum að skýra verði "lokað rými" þannig að miðað sé við að það tálmi ekki eftirlit lögreglu. Í þessu tilviki hafi verið auðvelt fyrir lögreglu að draga tjöldin frá einkadansklefanum og því hafi ekki verið um brot að ræða.

Upphaflega voru tvær dansmeyjar ásamt Ásgeiri ákærðar í málinu en önnur þeirra er farin af landi brott.

Var ríkissjóði gert að greiða tæpa hálfa milljón í málsvarnarlaun fyrir verjanda Ásgeirs og dansmeyjarinnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×