Innlent

Árangur af virðisaukaskattslækkunum kynntur á næstunni

MYND/GVA

Niðurstöðu í yfirferð Alþýðusambands Íslands og Neytendastofu yfir árangur af virðisaukaskattslækkun stjórnvalda í mars síðastliðnum er að vænta á næstu dögum að sögn Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í hádeginu að formaður Neytendasamtakannna vildi að stjórnvöld færu yfir árangur aðgerðanna í vor þegar virðisaukaskattur á matvörum var lækkaður og tollar og gjöld sömuleiðis. Í ljós hefur komið að aðgerðirnar skiluðu misgóðum árangri, til að mynda hækkuðu sum veitingahús verð hjá sér í kjölfar aðgerða stjórnvalda.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að ASÍ hafi verið falið að fylgjast með því hvort lækkanir á virðisaukaskatti hafi skilað sér á matvörumarkaði og Neytendastofa kannaði hið sama hjá veitingastöðunum. Þau hafa skilað skýrslum sínum til ráðuneytisins. „Okkar yfirferð er að ljúka og því er niðurstöðu í málinu að vænta á næstu dögum," segir viðskiptaráðherra.

Hann bætir við að það skipti öllu að þessar niðurstöður fáist fram því fram komi í stjórnarsáttmálanum að ætlunin sé að lækka vörugjöld og tolla. „Við verðum að tryggja þær breytingar skili sér til neytenda," segir Björgvin og tekur þar með undir orð formanns Neytendasamtakanna, Jóhannesar Gunnarssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×