Innlent

Svartaþoka á Hellisheiði

Svona var umhorfs á Hellisheiðinni í morgun.
Svona var umhorfs á Hellisheiðinni í morgun. MYND/Vegagerðin.is

Svartaþoka er nú á Hellisheiðinni og að sögn flutningabílstjóra sem hafði samband við fréttastofuna eru engin skilyrði til framúraksturs.

„Ég er á leiðini til Selfoss og ég og flutningabíllinn á undan mér ökum á 45-50 kílómetra hraða," sagði bílstjórinn í samtali við fréttastofu. Hann sagðist enn fremur aðeins sjá 2-3 vegstikur fram fyrir sig í þokunni en umferð um heiðina væri hins vegar ekki mikil.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að hálkublettir séu á Hellisheiðinni og í Þrengslum en Vegagerðarmenn muni vera að salta á heiðinni.

Af öðrum landshlutum er það að segja að enn er varað við óveðri á Vatnsskarði eystra. Flughált er á Nesjavallaleið, Laxárdalsheiði og á þó nokkrum leiðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og víða á Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×