Innlent

Mikill meirihluti telur stjórnvöld gera lítið í loftlagsmálum

Ríflega þrír af hverjum fjórum telja að stjórnvöld geri lítið til þess að draga úr útstreymi mengandi efna sem valda gróðurhúsaáhrifum og loftlagsbreytingum samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. Rúm 13 prósent aðspurðra töldu að stjórnvöld geri mikið og tæp 9 prósent tóku ekki afstöðu.

Náttúruverndarsamtökin segja í tilkynningu að þetta bendi til þess að nýrri ríkisstjórn hafi ekki tekist að sannfæra almenning um stjórnvöld taki loftslagsvandann alvarlega. Fyrir liggi markmið stjórnvalda um 50-75 prósent nettósamdrátt fyrir miðja öldina en aðgerðaáætlun um hvernig skuli dregið úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi bíði vorsins.

Náttúruverndarsamtök Íslands segja að ríkisstjórnin verði að sýna í verki hvernig hún hyggist ná samningsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, að iðnríki dragi úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 25-40 prósent fyrir árið 2020, til þess að öðlast tiltrú íslensks almennings í umhverfismálum.

Benda samtökin á að hækki hitastig meira en 2 gráður meðaltali í lofthjúpi jarðar aukist hættan á að loftslagsbreytingar verði ekki stöðvaðar. Höfuðmarkmið umhverfisverndarsamtaka á loftslagsþinginu í Bali sé að tveggja gráðna markmiðið verði leiðarljós samningaviðræðna um nýjan loftlagssáttmála í Kaupmannahöfn árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×