Innlent

Vilja reisa kalkverksmiðju á Þórshöfn

MYND/Kristján Gunnarsson

Hugmyndir eru uppi um að hágæðakalkverksmiðja rísi á Þórshöfn á næstu árum í tengslum við þróunarverkefni á vegum Hraðfrystistöðvar Þórshafnar.

Verkefnið sem nú stendur yfir miðar að því að vinna hágæðakalk úr kúfskel sem fellur til við kúffiskvinnslu á staðnum. Hágæðakalk er meðal annars notað í lyfjaiðnaði, sem íblöndunarefni í matvæli, í fæðubótaefni og í snyrtivöruiðnaði.

Fram kemur í nýjasta hefti Útherja, blaði Útflutningsráðs, að Hraðfrystistöðin hafi sótt um einkaleyfi á aðferð til að hreinsa óæskileg efni úr kúfskelinni en skelin er 97-98 prósent kalk.

Þá hefur félagið gert samstarfssamning við franskt fyrirtæki sem hefur með höndum vinnslu á hágæðakalki úr jarðnámum og er með sölunet um allan heim. Samningurinn tryggir að viðkomandi fyrirtæki mun aðstoða Hraðfrystistöðina við áframhaldandi þróun og að koma framleiðslunni í verksmiðjuferil. Markmiðið er að geta tekið ákvörðun innan þriggja ára um hvort hagkvæmt verði að reisa hágæðakalkverksmiðju á Þórshöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×