Innlent

Landsmönnum fjölgar um 130 þúsund til 2050

Landsmenn verða tæplega 438 þúsund árið 2050 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar sem birt er í dag.

Til samanburðar var íbúafjöldi á Íslandi rúmlega 307 þúsund í upphafi þessa árs og því er gert ráð fyrir að Íslendingum fjölgi um 130 þúsund á næstu 43 árum. Gert er ráð fyrir að árleg fólksfjölgun verði 0,8 prósent á spátímabilinu sem er heldur minni fjölgun en var á 20. öld. Við lok spátímabilsins geta íslenskar karlar vænst þess að vera 84,6 ára en meðalævilengd kvenna verður 87,1 ár.

Hagstofan bendir á að vegna lengri meðalævi og lækkaðrar fæðingartíðni verði talsverðar breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Öldruðum mun fjölga verulega á spátímabilinum og verða 7,5 prósent þjóðarinnar áttræð eða eldri árið 2050 samanborið við 3,1 prósent nú.

Þótt gert sé ráð fyrir því að barnsfæðingum fækki nokkuð á spátímabilinu verður fæðingartíðni áfram há í evrópsku samhengi. Íslenskar konur geta í dag vænst þess að eiga rúmlega 2 börn um ævina. Þetta hlutfall mun haldast óbreytt til 2015 en lækka síðan jafn og þétt í 1,85 við lok spátímabils. Vegna fremur hárrar fæðingartíðni verða börn og ungmenni hlutfallslega fjölmenn hér á landi. Árið 2050 mun fjórðungur íbúa tilheyra aldurshópnum 0-19 ára en í dag er þetta hlutfall 28,8 prósent.

Enn fremur segir Hagstofan að fólki af erlendum uppruna muni væntanlega fjölga í framtíðinni. Hagstofa Íslands gerir raunar ekki sérstaka spá fyrir innflytjendur en vegna aukins aðflutnings fólks frá útlöndum verður hlutfall einstaklinga sem fæddir eru í útlöndum hærra en verið hefur. Í spánni er gert ráð fyrir að tíðni flutningsjöfnuðar verði rúmlega 3 af hverjum 1.000 íbúum á komandi áratugum. Þetta er heldur lægri flutningsjöfnuður en í Noregi og Svíþjóð en hærri en í Danmörku og Finnlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×