Enski boltinn

Chelsea vann nauman sigur á West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Cole skorar sigurmark Chelsea í dag.
Joe Cole skorar sigurmark Chelsea í dag. Nordic Photos / Getty Images
Joe Cole var hetja Chelsea er hann skoraði eina mark leiks sinna manna og West Ham á Stamford Bridge í dag.

Fyrri hálfleikur var markalaus en í honum bar hæst brot John Obi Mikel á Scott Parker, leikmanni West Ham. Um leið og brotið átti sér stað hópuðust leikmenn Chelsea í kringum Howard Webb dómara sem hefði auðveldlega getað gefið Mikel rautt spjald. Hann sleppti honum þó með áminningu.

Leikmenn Chelsea hafa þó ekkert lært af reynslu undanfarinnar missera og virðast eiga erfitt með að hemja skapið sitt gagnvart dómara leiksins.

John Terry var þó heppinn að sleppa við gula spjaldið þegar hann greip Luis Boa Morte kverktaki eftir samskipti þess síðarnefnda við Carlo Cudicini, markvörð Chelsea. Viðbrögð Terry voru í besta falli ýkt.

Síðari hálfleikur var aðeins betri en sá fyrri sem var reyndar afar slakur.

Bæði lið fengu sín færi en það voru heimamenn í Chelsea sem voru líklegri til að skora fyrsta markið.

John Terry komst nálægt því að skora en náði ekki að stýra knettinum að marki eftir að skot Frank Lampard hafði breytt um stefnu.

Joe Cole gerði hins vegar engin mistök eftir að hann fékk sendingu inn fyrir vörn West Ham frá Salomon Kalou. Cole afgreiddi knöttinn laglega í mark West Ham en sjónvarpsendursýningar sýndu að Cole var sennilega rangstæður.

Þetta reyndist eina mark leiksins og er Chelsea fyrir vikið komið upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar, um stundarsakir að minnsta kosti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×