Enski boltinn

Sven-Göran hissa á tíðum brottrekstrum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sven-Göran Eriksson, knattspyrnustjóri Manchester City.
Sven-Göran Eriksson, knattspyrnustjóri Manchester City. Nordic Photos / Getty Images

Sven-Göran Eriksson, knattspyrnustjóri Manchester City, segist hissa á tíðum brottrekstrum knattspyrnustjóra á Englandi en nú þegar hafa sex stjórar fengið að taka poka sinn í ensku úrvalsdeildinni.

Hann segir að þetta sé algengt í Portúgal og á Ítalíu, þar sem hann hefur starfað áður. „En ég er hissa á að þetta skuli eiga sér stað á Englandi. Ég hélt alltaf að enskir stuðningsmenn og forráðamenn enskra félaga væru þolinmóðari en þeir í löndum Suður-Evrópu. Við erum farin að líkjast þessum löndum að þessu leyti."

Eriksson tekur fram að hann eigi ekki við neitt ákveðið félag í þessu samhengi. „Þegar illa gengur er erfitt að reka stjórnarformanninn eða leikmennina og er þá knattspyrnustjórinn næstur á listanum. Þetta er bara hluti af fótboltanum og verður maður að taka því."

Hann segir þó að það sé mikið áfall fyrir smærri liðin í ensku úrvalsdeildinni að falla um deild og því sé algengt að skipt sé um knattspyrnustjóra í þeim félögum.

„Peningar eru mikilvægir en þolinmæði líka. Þetta er ástæðan fyrir því að stærri klúbbarnir reka síður knattspyrnustjóra sína þótt að gengið sé slakt á tímabili."

Þessir knattspyrnustjórar hafa hætt á tímabilinu:

Jose Mourinho (Chelsea)

Sammy Lee (Bolton)

Martin Jol (Tottenham)

Chris Hutchings (Wigan)

Steve Bruce (Birmingham)

Billy Davies (Derby)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×