Innlent

Þingmenn fá aðstoðarmenn

Gert er ráð fyrir því að þingmenn fái sérstakan aðstoðarmann í frumvarpi sem forsætisnefnd Alþingis fjallar nú um. Kostnaður vegna þessa getur numið allt að 100 milljónum króna á ári.

Málið var rætt á fundi forsætisnefndar Alþingis í morgun en frumvarp því tengt er á lokastig. Samkvæmt heimildum Stöðvar tvö er þó ekki búið að útfæra tillögurnar í frumvarpinu nákvæmlega og koma nokkrar hugmyndir til greina.

Ein þeirra gerir ráð fyrir því að allir alþingismenn fái afnot að aðstoðarmanni sem þeir deila með öðrum þingmanni. Þá fái allir formenn stjórnarandstöðuflokkanna sinn aðstoðarmann. Verði þessi tillaga valin er ljóst að aðstoðarmenn á Alþingi geta orðið allt að 35 talsins. Séu núverandi aðstoðarmenn ráðherra einnig taldir með geta aðstoðarmenn þingmanna og ráðherra orðið alls 47 talsins.

Önnur tillaga gerir ráð fyrir því aðeins þingmenn landsbyggðarinnar fái aðstoðarmann auk formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Miðast tillagan við að jafna aðstöðumun þingmanna í stórum kjördæmum á landsbyggðinni og var fyrst rædd þegar kjördæmaskipan var breytt á sínum tíma.

Gangi þessi tillaga eftir verða aðstoðarmennirnir 32 talsins.

Ljóst er að kostnaðurinn vegna þessa getur orðið mikill og segja heimildir fréttastofu að hann sé á bilinu 90 til eitt hundrað milljónir á ári.

Þá segja heimildir fréttastofu að frumvarpið njóti stuðnings allra þingflokka á Alþingi nema Vinstri grænna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×