Enski boltinn

Birmingham að krækja í McLeish

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex McLeish gæti verið á leið til Birmingham.
Alex McLeish gæti verið á leið til Birmingham. Nordic Photos / Getty Images

Allt útlit er fyrir að Alex McLeish, landsliðsþjálfari Skota, taki við liði Birmingham á næstu dögum.

Samkvæmt Skysports.com hafa forráðamenn Birmingham greitt skoska knattspyrnusambandinu þá upphæð sem var í samningi McLeish svo honum væri frjálst að taka við öðru liði.

Birmingham setti sig fyrst í samband við skoska knattspyrnusambandið um helgina en var í fyrstu neitað leyfi til að ræða við McLeish. Hann mun nú eiga í viðræðum við Birmingham, sem leikur í ensku úrvalsdeildinni.

Ljóst er að þetta eru mikil vonbrigði fyrir skoska landsliðið en það var nálægt því að komast í úrslitakeppni EM 2008. McLeish var áður knattspyrnustjóri Rangers en tók við starfi landsliðsþjálfara af Walter Smith, sem gerðist svo knattspyrnustjóri Rangers.

Hann tók við starfi landsliðsþjálfara í janúar síðastliðnum, tæpu ári eftir að hann hætti hjá Rangers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×