Innlent

Rökstuddur grunur um að kona hafi verið seld mansali hingað til lands

Hildur Dungal er forstjóri Útlendingastofnunar.
Hildur Dungal er forstjóri Útlendingastofnunar.
Hildur Dungal, forstjóri Útlendingastofnunar, staðfestir dæmi þess að erlend kona hafi fengið dvalarleyfi á Íslandi vegna vísbendinga um að hún hafi verið seld mansali hingað til lands.

Rætt var við Guðrúnu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Þar kallaði Guðrún eftir aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda vegna mansals og kynbundins ofbeldis. Hún sagði jafnframt dæmi um að konu hefði verið veitt dvalarleyfi hér á landi vegna mansals.

Hildur staðfesti frásögn Guðrúnar og sagði það vera nýlegt. Hún sagði það vera í fyrsta sinn sem konu hefði verið veitt dvalarleyfi af þessari ástæðu. Hildur sagði að aðstæður konunnar hefðu verið það bágbornar að ekki hefði þótt rétt að senda hana úr landi. Að öðru leyti vildi Hildur ekki tjá sig um málefni konunnar.

Hildur segir að Útlendingastofnun sé í góðri samvinnu við Stígamót vegna bágstaddra kvenna sem koma hingað til lands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×