Íslenski boltinn

Ívar hættur með landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar Ingimarsson í síðasta landsleik sínum á Laugardalsvelli, gegn Lettum í síðasta mánuði.
Ívar Ingimarsson í síðasta landsleik sínum á Laugardalsvelli, gegn Lettum í síðasta mánuði. Mynd/Daníel

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari tilkynnti á blaðamannafundi KSÍ í dag að Ívar Ingimarsson væri hættur með íslenska landsliðinu.

Fyrir stuttu gaf Heiðar Helguson það út að hann væri hættur með íslenska landsliðinu en þeir leika báðir í ensku úrvalsdeildinni og ljóst að um mikla blóðtöku er að ræða fyrir íslenska landsliðið.

„Ívar hringdi í mig fyrir tíu dögum síðan," sagði Ólafur. „Hann sagði mér að hann gæfi kost á sér í Danaleikinn en svo væri hann hættur."

Ólafur sagði að sér hefði komið ákvörðun hans á óvart og vildi hann taka sér umhugsunartíma um hvort hann vildi velja Ívar í landsliðið sem mætti Dönum. „Ég hringdi svo í hann og tjáði honum að ég myndi ekki velja hann. Það var gott samtal en niðurstaðan er sú að hann er hættur með landsliðinu. Hann verður sjálfur að svara fyrir um ástæður sínar fyrir því."

Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem Ívar gefur ekki kost á sér í landsliðið en þegar liðið var undir stjórn Ásgeirs Sigurvinssonar og Loga Ólafssonar hætti hann að gefa kost á sér. Þegar Eyjólfur Sverrisson var ráðinn gaf hann svo kost á sér á ný. 

Ólafur sagði aðspurður að engir aðrir leikmenn sem hann hefur rætt við á undanförnum dögum og vikum hefðu afþakkað landsliðssæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×