Innlent

Íslendingar í slagtogi við einn frægasta rasista Bandaríkjanna

Andri Ólafsson skrifar
Hal Turner hýsir íslenska rasista á Internetinu.
Hal Turner hýsir íslenska rasista á Internetinu.

Heimasíðan skapari.com, sem hefur vakið mikla athygli undanfarna daga fyrir ýmiss konar rasískan áróður sem þar er að finna er haldið út af einum þekktasta talsmanni þjóðernishyggju í Bandaríkjunum.

Margt af því efni sem birst hefur á skapari.com er sannarlega óhugnalegt. Í grein sem þar birtist eru tilgreindir nokkrir af þeim sem höfundur síðunnar telur vera „óvini Íslendinga". Þar eru meðal annars upptalin forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og eiginkona hans Dorrit Moussaieff, auk fleiri nafngreindra Íslendinga.

Athygli vekur að þrátt fyrir að síðan sé skrifuð á íslensku og fjalli að mörgu leyti um nafngreinda Íslendinga þá er hún í eigu eins frægasta talsmanns kynþáttahyggju í Bandaríkjunum.

Sá heitir Hal Turner og er hvað þekktastur fyrir útvarpsþátt sem hann sendir út frá heimili sínu í New Jersey. Þaðan útvarpar hann daglega öfgakenndum skoðunum sínum um „yfirburði hvíta kynstofnsins“ og fleira í þeim dúr.

Turner nýtur fylgis nýnasista og öfgafullra þjóðernissinna í Bandaríkjunum en áhugi hans á að koma þeim hugsjónum á framfæri á Íslandi virðist vera nýr af nálinni.

Vísir reyndi án árangurs í dag að hafa samband við Hal Turner og Íslendingana sem skrifa á skapari.com.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×