Íslenski boltinn

Magnús fær bronsskóinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér er Magnús Páll í leik með Breiðabliki gegn HK.
Hér er Magnús Páll í leik með Breiðabliki gegn HK. Mynd/Rósa

Magnús Páll Gunnarsson, leikmaður Breiðabliks, mun fá bronsskóinn á lokahófi KSÍ í kvöld þrátt fyrir allt.

Óljóst var hvort að Magnús Páll hafi skorað eitt eða tvö mörk gegn FH á Kópavogsvelli í sumar. Í öðru markanna sem dómari skráði á hann voru hann og Auðun Helgason báðir í boltanum rétt áður en hann fór í markið.

Allir fjölmiðlar skráðu markið sem sjálfsmark Auðuns en dómari leiksins, Magnús Þórisson, skráði markið á Magnús Pál eftir að hafa spurt hann út í atvikið

„Við skoðuðum markið æði oft á myndbandi og á þeim myndum er ekki hægt að afsanna að Magnús hafi skorað markið," sagði Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ í samtali við Vísi. „Það er því skýrsla dómara sem gildir og fær hann því bronsskóinn."

Lokahóf KSÍ fer fram í kvöld og sagði Birkir að öll kurl væru ekki komin til grafar í þessu máli. „Það er rétt að Magnús fær bronsskóinn en það gæti samt eitthvað meira gerst í þessu máli í kvöld," sagði hann dulur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×