Íslenski boltinn

Jói Kalli: Engan veginn okkar dagur

Elvar Geir Magnússon skrifar

„Menn eru náttúrulega mjög svekktir eftir þennan leik. Þetta er alls ekki það sem við lögðum upp með," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson eftir 2-4 tap Íslands gegn Lettlandi í dag.

„Við vorum í fínum takti við leikinn þar til þeir jöfnuðu í 1-1. Eftir það virtumst við of opnir. Við náðum ekki að þétta liðið og varnarleikurinn var ekki góður hjá liðinu í heild sinni," sagði Jóhannes.

„Kantmennirnir hjá Lettlandi komu mikið inn í fyrri hálfleiknum. Ég og Brynjar einangruðumst nokkuð vegna þess. Það opnuðust holur á miðjum vellinum sem við hefðum átt að loka. Þeir skoruðu mjög ódýr mörk í ljósi þess hve sterkir við eigum að vera í föstum leikatriðum."

„Það var agalegt að fá fjórða markið á sig strax í byrjun seinni hálfleiksins. Það var hálfgert reiðarslag en við verðum bara að halda áfram. Á köflum lékum við ágætlega og hefðum getað skorað fleiri mörk. Þetta var engan veginn okkar dagur," sagði Jóhannes Karl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×