Innlent

Róbert Árni áfrýjar til Hæstaréttar

Einar Gautur Steingrímsson.
Einar Gautur Steingrímsson.

Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður Róberts Árna Hreiðarssonar sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Róbert Árni viðurkennir ekki sekt í málinu og í samtali við Vísi segir Einar Gautur að hann telji dóminn byggðan að hluta til á sönnunargögnum sem ekki standist fyrir rétti. Hann gagnrýnir einnig harðlega þá ákvörðun dómsins að láta ákvörðun um sviptingu á lögmannsréttindum Róberts standa óhaggaða þrátt fyrir áfrýjun.

Einar Gautur segir að refsingin í málinu sé í algjöru ósamræmi við sakargiftir og að Róbert hafi verið dæmdur eins og um mun alvarlegri brot væri að ræða. „Þar sem ég finn dómnum ekki stoð í dómavenjum dómstóla tel ég að hann hafi gert mistök, eða dæmt á grundvelli sjónarmiða sem ekki eru heimil," segir Einar Gautur, „en ég get ekki dæmt um hvað fór í gegnum huga dómaranna þegar þeir komust að þessari niðurstöðu."

Á meðal raka sem notuð voru fyrir dómnum var að Róbert hefði átt sem lögmaður að gera sér betri grein en ella fyrir alvarleika meintra brota. Einar Gautur segir þennan rökstuðning afar veikan þar sem allir séu jafnir fyrir lögunum. „Það er einfaldlega óheimilt að refsa fólki eftir því hvaða starfstétt það tilheyrir."

Lögmaðurinn gerir líka alvarlegar athugasemdir þau gögn sem voru lögð fyrir í héraðsdómi dómnum til grundvallar. „Gögnin um það tjón sem stúlkurnar eru sagðar hafa orðið fyrir eru að mestu illa unnin, hlutdræg, og fyrst og fremst sóknarskjöl fyrir kærendur," segir Einar Gautur. „Þarna er yfirleitt ekki um að ræða fagmannlega unnin vottorð, þar sem reynt er að meta hvað þessi meinti verknaður hefur haft að segja um líðan stúlknanna í dag, því það eru aðrir þættir sem augljóslega eru aðal rótin að þeirra vandamálum. Mér finnst sumir vottorðagjafar lítta vísvitandi fram hjá þeim."

Róbert Árni var einnig sviptur lögmanssréttindum sínum í héraðsdómi og var ákveðið að framkvæmd þeirrar ákvörðunar yrði ekki frestað þrátt fyrir áfrýjun. Þetta telur Einar Gautur afar óeðlilegt. „Þetta er mjög stórt skref hjá héraðsdómi því þessi ákvörðun verður ekki afturtekin þótt Hæstiréttur sýkni umbjóðanda minn. Rökin í dómnum fyrir þessu, að hann hafi tekið að sér mál sem verða kynferðisbrot standast ekki, því sá dómari sem skipaði hann í þeim málum gæti einfaldlega afturkallað skipunina. Þarna er því verið að grípa fram fyrir hendurnar á öðrum dómara að mínu mati og það má segja að dómurinn hafi skotið mýflugu með fallbyssu."

Einar Gautur segir ekki ljóst hvenær málið komi fyrir Hæstarétt. Það sé ákæruvaldsins að útbúa skjöl og gögn til Hæstaréttar og því sé boltinn hjá þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×