Íslenski boltinn

Ragnar: Ljótur en sætur sigur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mynd/Heimasíða Gautaborgar.
Mynd/Heimasíða Gautaborgar.

Ragnar Sigurðsson, varnarmaður íslenska landsliðsins, segir að sigurinn hafi kannski ekki verið fallegur en þó mjög sætur. „Ég held að það sé hægt að segja að þetta hafi verið ljótur sigur," sagði Ragnar við Vísi eftir leikinn gegn Norður-Írlandi.

„Við féllum of mikið til baka. Svona vill oft gerast þegar lið komast yfir gegn liði sem er talið sterkara. Menn ætluðu sér ekki að gera þetta en ósjálfrátt þá féllum við til baka," sagði Ragnar.

„Jöfnunarmarkið hjá þeim lá í loftinu í seinni hálfleiknum. Við töluðum síðan ekki nægilega vel saman og vorum ekki með á hreinu hver ætti að dekka sóknarmann þeirra og hann fékk víti."

Sigurmark Íslands kom á 89. mínútu en fram að því var liðið ekki mjög líklegt til að skora. „Þeir héldu áfram að pressa okkur eftir markið og þá náðum við skyndisóknum. Svo náðum við að skora þetta mark og það var frábær tilfinning að sjá boltann inni," sagði Ragnar sem leikur með Gautaborg í Svíþjóð.

„Fyrir Spánarleikinn töluðum við saman og vorum ákveðnir í að sýna þjóðinni að við værum betri en við höfðum sýnt. Þessi andi hefur skilað okkur fjórum góðum stigum úr þessum tveimur heimaleikjum."

Ragnar var aðeins að spila sinn þriðja landsleik en það var ekki að sjá á honum. Hann hefur komið virkilega sterkur inn í liðið þrátt fyrir ungan aldur. „Í heildina litið er ég mjög sáttur við mína frammistöðu í kvöld. Ég lét samt klobba mig þarna einu sinni og er fúll yfir því en annars glaður," sagði Ragnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×