Íslenski boltinn

Einkunnagjöf íslenska liðsins

Gunnar Heiðar átti magnaðan leik í gær.
Gunnar Heiðar átti magnaðan leik í gær.

Fréttablaðið gaf leikmönnum íslenska landsliðsins einkunnir fyrir þeirra frammistöðu í leiknum gegn Spánverjum í gær. Hér að neðan má sjá einkunnagjöf blaðsins ásamt rökstuðningi.

Árni Gautur Arason - 8

Gríðarlega öruggur frá upphafi til enda. Ekkert hik og varði nánast allt sem á markið kom. Gat lítið gert við markinu.

Kristján Örn Sigurðsson - 8

Steig vart feilspor í vörninni og pakkaði David Silva saman nánast allan leikinn. Skilaði boltanum frá sér á stuttan og skynsaman hátt.

Ívar Ingimarsson - 8

Stýrði vörninni mjög vel og var öryggið uppmálað í öllum sínum aðgerðum. Ánægjulegt hversu vel hann nær saman með hinum unga Ragnari. Spurning hvort Eyjólfur sé loksins búinn að finna miðvarðarparið sitt.

Ragnar Sigurðsson - 8

Mögnuð frammistaða hjá Ragnari í aðeins sínum öðrum landsleik. Stekkur fullskapaður í landsliðið og spilar af gríðarlegri yfirvegun og öryggi.

Hermann Hreiðarsson - 8

Finnur sig mun betur í bakvarðarstöðunni með landsliðinu og sýndi það enn á ný í gær. Hafði góðar gætur á Joaquin og ógnaði líka fram á við í fyrri hálfleik.

Grétar Rafn Steinsson - 8

Hljóp úr sér lifur og lungu í leiknum. Gaf aldrei tommu eftir, skilaði bolta vel frá sér og var ógnandi.

Kári Árnason - 7

Var í vanþakklátu starfi aftast á miðjunni. Vissi sín takmörk og skilaði því sem ætlast var til af honum.

Arnar Þór Viðarsson - 6

Barðist, hljóp mikið, allur af vilja gerður en náði samt litlum takti við leikinn og var lítið í boltanum.

Jóhannes Karl Guðjónsson - 9

Prímusmótorinn í miðjuspili Íslands. Vann mörg einvígi, skilaði bolta vel frá sér og barðist eins og ljón. Gaf svo frábæra sendingu á Emil í markinu.

Emil Hallfreðsson - 9

Virkar í hörkuformi, átti fjölmarga stórhættulega spretti og var Spánverjum erfiður. Skoraði frábært mark.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson - 9

Þvílíkur baráttuhundur. Ótrúleg vinnsla í Gunnari allan leikinn, kom sér í færi og var óheppinn að skora ekki. Átti það svo sannarlega skilið.

Varamenn

69. mín. Ólafur Ingi Skúlason - 6

79. mín. Baldur Aðalsteinsson - x

88. mín. Ármann Smári Björnsson - x




Fleiri fréttir

Sjá meira


×