Lífið

Ungfrú Suður Carolina aðhlátursefni á Youtube

Lauren Caitlin Upton, ungfrú Suður Carolina, lenti í miklum vandræðum þegar hún þurfti að svara spurningu í fegurðarsamkeppninni Teen USA á föstudaginn síðastliðinn. Hún klúðraði svarinu það illa að það endaði á Youtube og hafa tvær milljónir manna skoðað myndbandsupptöku af því.

Hin átján ára gamla Upton var spurð að því af hverju Bandaríkjamenn væru svona lélegir í landafræði. Eftir nokkurt hik svaraði hún því til að fólk þarna úti í samfélaginu ætti ekki landakort. Hún bætti svo við algerlega óviðkomandi skírskotun til í Íraks, Asíu og Suður-Afríku og sagði að fólk sem byggi þar þyrfti á aðstoð að halda frá bandaríska menntakerfinu til að geta betur þekkt Bandaríkin á korti sem aftur væri gott fyrir framtíð barna í Bandaríkjunum.

Í samtali við dagblaðið The State segist Upton ekki hafa átt von á spurningunni og algerlega misst þráðinn. "Ég gjörsamlega misskildi spurninguna," bætir hún við. Spyrillinn Mario Lopez segir í samtali við tímaritið PEOPLE að hann hafi gjarnan viljað aðstoða stúlkuna en að það gangi gegn keppnisreglum. "Þetta eru mjög krefjandi aðstæður. Keppnin er í beinni útsendingu og keppendur vita ekki hvaða spurningum þeir eiga von á. Ég held að hún hafi algerlega misskilið spurninguna. Hún leiddist út á ranga braut og fann sig ekki aftur. Ég kenndi virkilega í brjóst um hana," segir Lopez.

Stúlkan kom fram í þættinum Today show í morgun og fékk þá tækifæri til að svara fyrir mistökin og auk þess að svara spurningunni aftur. Tókst henni töluvert betur til en á föstudag. Þrátt fyrir afleita frammistöðu í spurningarþætti keppninnar náði Upton þriðja sæti. Hver segir svo að útlitið skipti ekki máli...

Hið víðfræga myndband má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.