Innlent

Hver einasti Íslendingur skuldar 250 þúsund í yfirdrátt

 

Hver einasti Íslendingur skuldar um tvöhundruð og fimmtíu þúsund krónur í yfirdrátt í bönkum og borgar fimmtíu þúsund krónur á ári í vexti. Heildaryfirdráttur landsmanna hefur aldrei verið hærri. Yfirdráttarlán landsmanna nema nú 75,6 milljörðum króna.

 

Fyrir þá fjárhæð sem Íslendingar skulda bönkunum vegna yfirdráttarlána, gæti hver einasti landsmaður farið í dágóða hnattreisu.

Af þessari miklu skuld þurfa Íslendingar að greiða verulegar fjárhæðir í vexti. Miðað við 20,5% yfirdráttarvexti, sem er fráleitt hæstu vextirnir á markaðinum, lætur nærri að vextirnir sem Íslendingar greiða vegna yfirdráttar á einu ári séu rösklega 15,5 milljarðar króna.

Á hverjum mánuði eru Íslendingar því að greiða 1,3 milljarða króna í vexti vegna yfirdráttarlána.



Ef horft er á einstakling sem er með 350 þúsund krónur í yfirdrátt, sem er mjög algeng fjárhæð í yfirdrátt, þá greiðir hann nærri sex þúsund krónur á mánuði í vexti og tæplega 72 þúsund krónur á ári til bankans síns vegna yfirdráttarins.

Hjón með sama yfirdrátt greiða tæplega tólf þúsund krónur á mánuði og nærri hundrað fjörutíu og fjögur þúsund á ári í yfirdráttarvexti.

Fyrir ársvextina getur fjögurra manna fjölskylda farið í bíó á hverjum einasta degi í heilan mánuð.

Fyrir allan yfirdráttinn sem Íslendingar skulda bönkunum, þessa 75,6 milljarða króna, má kaupa skólamáltíðir fyrir 15 milljónir nemenda í heilan mánuð.

Þá mætti kaupa að minnsta kosti fimm lið í ensku úrvalsdeildinni, til dæmis Derby,

Middlesbro, Fulham og Íslendingaliðið West Ham auk Newcastle sem Íslendingar sýndu mikinn áhuga á að kaupa á dögunum.

Fyrir yfirdráttinn má líka kaupa 50 þúsund og fjögur hundruð Toyota Yaris bíla og einungis fyrir mánaðarlega yfirdráttarvexti landsmanna, sem hljóða upp á tæpan 1,3 milljarða, má fylla tankinn fimm sinnum á hverjum einasta Yaris bíl.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×