Innlent

Kvartað undan nýjum vef Strætós

Nýr vefur Strætó þykir mun lakari en sá gamli og á netinu er skorað á forsvarsmenn strætó til að opna gamla vefinn aftur. Tæpum fimm milljónum var eytt í vinnu við gamla vefinn sem nú nýtist Strætó ekki neitt.

Vefurinn vr opnaður um helgina og þykir mörgum hann vera afturhvarf til fortíðar. Á vefsvæðum sem unglingar heimsækja mikið eins og B2 og fleirum hafa spunnist umræður um nýja vefinn og fær hann ekki háa einkunn. Ekki er hægt að leita að ferðum strætó eftir staðsetningu eins og var á þeim gamla heldur er aðeins hægt að prenta út og skoða leiðarkerfin.

Það þýðir að neytandinn þarf að vita hvaða vagn hann ætlar að taka og engar leiðbeiningar eru um það hvað er hentugast hverju sinni. Þykir ýmsum óskiljanlegt að Strætó hafi ákveðið að skipta vefnum út. Málið hefur meira að segja borið á góma hjá nokkrum þingmönnum sem þykja ákvörðun strætó óskiljanleg.

Fréttastofa hefur heimilidir fyrir því að Strætó hafi eytt um fimm milljónum króna í gamla vefinn og nýtist sú vinna ekkert við uppsetninguna á þeim nýja. Síðast var gamli vefurinn uppfærður fyrr á þessu ári fyrir um hálfa milljón króna. Því má spyrja í ljósi umræðunnar hvort þarna hafi peningum Strætó hreinlega verið hent út um gluggann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×