Innlent

Fær ekki stuðning fyrir fatlaðan son sinn frá Tryggingastofnun

Faðir níu ára drengs sem lamaðist neðan mittis í umferðarslysi fær engan opinberan stuðning til að kaupa á hjálpartækjum fyrir drenginn til að nota á sínu heimili. Hann segist upplifa sig gagnvart kerfinu eins og hann sé ekki til.

Ásgeir Ingvi Jónsson, faðir Nóna Sæs, lenti ásamt tveimur börnum sínum í mjög alvarlegu bílslysi við Sandskeið í desember í fyrra.

Afleiðingarnar voru hörmulegar en drengurinn lamaðist neðan mittis og fimm ára gömul systir hans lést.

Þar sem faðir og móðir drengsins eru skilin, og búa hvort í sínu bæjarfélaginu, sótti faðirinn sérstaklega um stuðning frá Tryggingastofnun til að kaupa bað- og salernishjálpartæki fyrir drenginn ásamt stuðningsbelti í bifreið sína.

Ásgeir segir að Tryggingastofnun greiði eingöngu fyrir eitt eintak af hverju hjálpartæki og það hafi þegar verið gert fyrir heimili móðurinnar þar sem drengurinn á lögheimili.

Ásgeir segist þegar hafa keypt hjálpartækin og því skorti ekkert fyrir drenginn á sínu heimili. Hann segir að þetta sé prinsipp mál fyrir sig að berjast fyrir réttlæti. Hér skipti peningar engu máli, heldur vilji Ásgeir fyrst og fremst ryðja brautina fyrir aðra.

Hann segir að Tryggingastofnun sé augljóslega að miða sína úrskurði við gamalt og úrelt fjölskylduform.

Ásgeir segir að hann þurfi ekki einungis að kljást við Tryggingastofnun til að tryggja syni sínum ákjósanlegar aðstæður, hann segir að tryggingafélögin miði sínar tryggingar við þann stað sem börnin eigi lögheimili. Ásgeir segist upplifa sig gagnvart kerfinu eins og hann sé ekki til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×