Innlent

Vegrifflur geta fækkað slysum um allt að 60 prósent

Vegagerðin hyggst auka öryggi vegfarenda með því að fræsa sérstakar "rifflur" í vegarkanta sem gera ökumönnum viðvart þegar bílar rása út í kantana. Reynslan sýnir að þessi aðgerð getur dregið úr slysum um allt að sextíu prósent.

Í dag var fræst á Grindavíkurvegi en aðeins er fræst í malbik en ekki svokallaða vegklæðningu.

Hér er einungis um tilraun að ræða en markmiðið er að fækka slysum og kanna hvort rifflurnar geti að einhverju marki komið í stað vegriða.

Rifflur eru miklu ódýrari kostur en vegrið en þær geti aldrei komið alfarið í stað þeirra.

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, talsmanns Vegagerðarinnar, er vegrifflum ætlað að vekja athygli ökumanna á að þeir séu í þann mund að aka út af vegi eða yfir á akrein með umferð úr gagnstæðri átt.

Um leið og ekið er út á rifflurnar myndast talsverður hávaði auk þess sem titringur kemur á bifreiðina sem vekur bílstjóranna til vitundar um aðsteðjandi hættu.

Áður hafa verið gerðar tilraunir með upphleyptar vegmerkingar sem höfðu svipaðan tilgang en þær hafa ekki enst veturinn meðal annars vegna nagladekkja. Þessi aðferð er líklega til að reynast betur, en fræsingar af þessum toga hafa verið notaðar víða erlendis með mjög góðum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×