Innlent

Herþotur og sérsveitarmenn streyma til landsins

Menn og farartæki sem notuð verða á varnaræfingunni Norður-Víkingnum, sem hefst formlega á morgun, hafa streymt til landsins undanfarna daga og koma síðustu þátttakendurnir í dag.

Um þrjú hundruð manns taka þátt í æfingunni, sem stendur fram á fimmtudag. Æfingin er á grundvelli samkomulags íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá því í október í fyrra. Hún skiptist í tvennt, loftvarnaæfingu og æfingu gegn hryðjuverkum. Bandaríkjamenn og Norðmenn leggja til orrustuflugvélar en NATO ratstjárflugvélar. Þá tekur danska varðskipið Tríton einnig þátt í æfingunni. Íslenskir sérsveitarmenn æfa svo viðbrögð við hryðjuverkum ásamt norskum, dönskum og lettneskum starfsbræðrum sínum.

Að sögn Friðþórs Eydal, upplýsingafulltrúa á Keflavíkurflugvelli, komu F-16 þotur frá Noregi til landsins í morgun og þá koma sams konar þotur frá Bandaríkjunum í dag. Allir þeir sem koma að utan til æfinganna munu svo dvelja á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar á meðan á æfingunni stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×