Innlent

Tékkalög verða endurskoðuð á næstunni

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að tékkalög verði endurskoðuð á næstunni með það að markmiði að skerpa þannig á þeim að það liggi fyrir með skýrum hætti að bankarnir hafa ekki heimild til þess að beita viðskiptamenn sína viðurlögum á þeim grundvelli heldur sé yfirdráttarkostnaður hluti af viðskiptasamkomulagi bankanna og viðskiptavina þeirra. "Þessi lög eru komin til ára sinna og tímabært að endurskoða Þau og færa í nútímahorf," segir Björgvin.

Björgvin segir að ef banki og viðskiptavinur hans hafi gert með sér samkomulag um að viðskiptavinur borgi sekt fyrir að fara framyfir á reikningi sínum sé það annað mál og þáttur af viðskiptamáta sem liggi fyrir þegar viðskipti hefjast. "Það sem við viljum koma í veg fyrir er að banki ákveði einhliða að sekta viðskiptavini sína fyrir þetta. Það er réttlætismál að hafa þetta í lagi," segir Björgvin og vísar í umfjöllun talsmanns neytenda um þetta mál fyrir nokkrum dögum.

Tékkalög þau sem hér um ræðir eru frá árinu 1933 og því orðið tímabært að endurskoða þau. "Það er á hreinu að við viljum skerpa á lögunum og breyta þeim þannig að viðskiptahættir séu gagnsæir og skýrir, segir Björgvin




Fleiri fréttir

Sjá meira


×