Innlent

Neyðarhjól koma að góðum notum

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur nú til umráða mótorhjól til að veita fyrstu aðstoð þegar umferð er mikil og erfiðlega getur verið að koma sjúkrabíl á staðinn. Hjólið hefur reynst vel og fór til að mynda í þrjú útköll niður í miðbæ Reykjavíkur í gærdag.

Hjólið hefur verið í notkun síðan um verslunarmannahelgina. Hugmyndin kviknaði hjá einum starfsmanni slökkviliðsins fyrr í sumar og var ákveðið að taka hjólið í notkun til reynslu.

Hjólið er mjög vel útbúið og á því eru öll tæki og tól sem þarf til að veita svokallaða fyrstu neyðarhjálp.

Á dögum eins og gærdeginum, þegar mikill mannfjöldi er samankominn í miðbænum þá kemur hjólið að góðum notum. Sjúkraflutningamaðurinn sem á hjólinu er getur þá veitt neyðaraðstoð þar til sjúkrabíll kemur á staðinn, sem alltaf tekur aðeins lengri tíma á slíkum dögum.

Í haust verður svo lagt mat á það hvort ástæða sé fyrir slökkviliðið að festa kaup á svona hjóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×