Innlent

Gleði í gleðigöngu Hinsegin daga

Næstum þriðjungur Íslendinga sleikti sólina á útihátíðum á landinu í dag. Lögregla telur að ríflega fimmtíu þúsund manns hafi gengið niður Laugaveginn í Reykjavík í Gleðigöngu til stuðnings réttindabaráttu samkynhneygðra. Það þýðir að aldrei hafi fleiri Íslendingar verið saman komnir á einum stað en í miðbænum í dag.

Það mátti greina eftirvæntingu í andlitum þeirra fjölmörgu sem lögðu leið sína á Laugarveg í dag til að berja gleðigönguna augum en sumir vissu ekki alveg á hverju þeir áttu von.

Þetta er í níunda sinn sem hommar og lesbíur halda hátíðlega svokallaða Hinsegin daga og gleðigangan, Gay Pride, hápunktur hátíðarinnar. Í það minnsta 50 þúsund manns tóku þátt í göngunni í ár sem er sú stærsta hingað til enda veðrið með allra besta móti. Og það er óhætt að segja að gleðigangan beri nafn með rentu því hvert sem litið var skein gleði úr augum fólks.

Sérstakur heiðursgestur Hinsegin daga var að þessu sinni Miss Vicky frá Flórida en hún er rúmlega áttræð jass og revíusöngkona sem enn er að skemmta eftir um 70 ára farsælan feril

Gleðigangan endaði svo á Arnarhóli þar sem fjölmargir listamenn tróðu upp. Það var svo Páll Óskar, sjálfur diskókóngur Íslands sem að öðrum ólöstuðum kom öllum sem á hlýddu í rífandi stuð.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×