Innlent

Brauðmeti hækkar frá og með næstu mánaðarmótum

Kaupmönnum hefur verið tilkynnt um hækkanir á brauðmeti frá og með næstu mánaðarmótum. Ýmsar vísbendingar eru uppi um að innfluttar matvörur kunni að hækka á næstunni vegna þróunar á heimsmarkaði.

Kaupmönnum hér á landi hefur mörgum hverjum borist bréf frá framleiðendum brauðmetis þar sem fram kemur að fyrirtækin sjá sér ekki fært annað en að hækka verð á vörum sínum frá og með 1. september næstkomadi. Þetta sé vegna hækkana á launum og hráefni. Hækkanirnar geta numið allt upp undir sex prósent.

Verð á hveiti hefur undanfarið verið að hækka á heimsmarkaði. Uppskerubrestir vegna þurrka og flóða hafa haft mikil áhrif á framleiðslu hveitis. Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að smjör hafi einnig hækkað í verði vegna framleiðslusamdráttar í mjólkurvörum og að smjör hafi að meðaltali hækkað um fjörtíu prósent en hveiti um rúman fjórðung. Þessar hækkanir hafa mikil áhrif á þá sem framleiða brauð, pasta, kex og kökur.

Verslunarrekendur sem að fréttastofan ræddi við í morgun segja matvörur almennt vera að hækka í verði í heiminum. Hækkanirnar séu þó ekki farnar að skila sér hingað til lands en vísbendingar eru um að matvara hér á landi kunni að hækka á næstunni.

Vísbendingar eru einnig uppi um að grænmeti kunni einnig að hækka á næstunni þar sem dregið hefur úr framboði á grænmeti í heiminum. Framleiðendur erlendis hafa í auknu mæli snúið sér frá því að framleiða grænmeti og notað garða sína þess í stað til að framleiða Bio-eldsneyti, sem er lífrænt eldsneyti, sem gefur þeim mun meiri tekjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×