Innlent

Eina "álverið" í Reykjavík rifið innan skamms

Landsvirkjun ætlar að hætta rekstri eina álversins í Reykjavík um næstu mánaðamót. Ástæðan? Landsvirkjun mun afhenda Reykjavíkurborg gamla vararafstöðvarhúsið við Elliðaár til niðurrifs. Rafstöðin hefur stundum verið kölluð litla álverið en kælirásir í gólfinu hafa verið griðastaður fyrir ál - lifandi glerál.

Landsvirkjun hefur afsalað sér þremur lóðum í Elliðaárdal til Reykjavíkurborgar án endurgjalds en í samkomulaginu skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að rífa gömlu vararafstöðina sem sumum þykir fráleitt prýði.

Þetta mikla mannvirki hýsti gufurafstöð þar sem katlarnir voru voru kynntir með kolum og olíu og jafnvel mó. Vatn var tekið úr Elliðaánum til kælingar og stokkur lá úr ánum inní stöðina.

Í stokknum og í kælirásum hefur alltaf verið mikið um glerál sem gengur upp í árnar og má alveg eins reikna með því að hann komi í ljós í einhverjum mæli þegar húsið verður rifið.

Álversnafnið, sem hefur verið notað í hálfkæringi, er auðvitað sótt í glerál sem hefur að sögn Benedikts Sigurðssonar hjá Landsvirkjun dálæti á vatnsinntakinu en sumir segja að álarnir hafi breytt rafstöðinni í álver í orðsins fyllstu merkingu.

Margar hugmyndir hafa komið fram um að hafa starfsemi áfram í húsinu og hafa meðal annars komið tillögur frá arkitektum um meiriháttar breytingar á því. Benedikt sem hefur haft umsjón með Rafstöðinni segist ekki sakna hennar þótt hún hverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×