Innlent

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segist ekki vanhæfur

Sighvatur Jónsson skrifar

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hafnar því að vera vanhæfur í samkeppnismáli Mjólkursamsölunnar, Osta- og smjörsölunnar og Auðhumlu, eins og Mjólkursamsalan heldur fram. Forstjóri Mjólku óttast það að Mjólkursamsalan telji sig hafna yfir lög og starfsemi eftirlitsstofnanna.

Mjólkursamsalan, Auðhumla og Osta- og smjörsalan hafa farið fram á það í Héraðsdómi Reykjavíkur að forstjóra Samkeppniseftirlitsins og öðrum starfsmönnum þess verði gert að víkja sæti við meðferð málsins. Er vísað til þess að skoðanir starfsmanna eftirlitsins á meintu samkeppnisbroti hafi komið fram opinberlega.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, gerir skýran greinarmun tvennu. Annars vegar áliti sem skilað var til landbúnaðarráðherra síðasta haust, um stöðuna í mjólkuriðnaðinum á Íslandi, og hins vegar þeirri rannsókn sem nú er í gangi. Hann segir að hvorki hann né aðrir starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafi tjáð sig um málið eða mjólkurmarkaðinn þannig að það leiði til vanhæfis.

Páll Gunnar segir að sú umfjöllun sem Samkeppniseftirlitið hafi tekið þátt í um þennan markað hafi lotið að öðrum þáttum, það er samkeppnisstöðu á markaðnum almenn, sérstaklega því að fyrirtæki í mjólkuriðnaði eru að hluta til undanþegin samkeppnislögum.

Ólafur M. Magnússon, forstjóri Mjólku, segist ekki hafa haft hugmyndaflug til að láta sér detta í hug þennan málaflutning Mjólkursamsölunnar. „Þetta er mjög dapurlegt og grafalvarlegt fyrir okkur sem erum í samkeppni við þetta fyrirtæki ef það telur sig hafið yfir samkeppnislög og eftirlitsstofnanir, sem eiga að skikka leikinn þegar eitthvað ber útaf," segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×