Innlent

Aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna heimsækir Hellisheiðarvirkjun

Ráðherra ásamt fylgdarliði við Hellisheiðarvirkjun í dag.
Ráðherra ásamt fylgdarliði við Hellisheiðarvirkjun í dag. MYND/OR

Alexander Karsner, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Hellisheiðarvirkjun í morgun í boði Orkuveitu Reykjavíkur. Alexander er hingað kominn til að kynna sér lausnir í nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu. Von er á sendinefndum bandarískra þingmanna á næstu vikum.

Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur að ráðherrann hafi látið vel af heimsókninni. Ráðherranum var meðal annars kynnt starfsemi Orkuveitunnar og fleiri fyrirtækja í orkugeiranum hér á landi.

Þá kemur einnig fram í tilkynningu Orkuveitunnar að telja megi víst að samtöl forseta Íslands við áhrifafólk í Bandaríkjunum hafi haft áhrif á áhuga þarlendra stjórnvalda á að kynna sér umhverfisvæna orkuframleiðslu hér á landi.

Ennfremur segir að Orkuveita Reykjavíkur hafi þegar haslað sér völl í Bandaríkjunum í gegnum fyrirtækin Enex og Iceland American Energy sem er að reisa orkuver í Kaliforníu. Þá eru til skoðunar möguleikar á raforkuframleiðslu á háhitasvæðum í Alaska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×