Innlent

Ætla að halda Smartkortunum

Reykjavíkurborg mun ekki hætta þróun og vinnu við uppsetningu Smartkorta hvort sem Strætó dregur sig út úr samstarfinu eður ei. Þar er litið á kortin sem tæki til sóknar í markaðssetningu.

Fimm ár eru síðan borgarráð ákvað að innleiða kortin en Smartkortin eru tegund greiðslukorta sem innihalda örgjörva. Hugmyndin var að fastagestir strætó, sundstaða, safna og fleiri fyrirtækja borgarinnar gætu notað kortið til greiðslu aðgangseyris þeim til hægðarauka.

Í Fréttablaðinu í morgun segir að Strætó bs hafi keypt smartkortalesara í vagna sína fyrir um 100 milljónir króna en síðan hafi fyrirtækið sem sá um þróun kerfisins orðið gjaldþrota. Haft er eftir Reyni Jónssyni, framkvæmdarstjóra Strætó að gera megi ráð fyrir að aðrar 400 milljónir hafi farið í verkefnið, að hlutur Strætó bs. vegna kerfisins sé orðinn 250 milljónir króna og Kostaður borgarinnar annað eins.Þá segir Reynir að ekkert annað að gera fyrir Strætó en að loka kerfinu ef einkaaðilar taki það ekki yfir.

Ómar Einarsson, sviðstjóri Íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkur sagði í samtali við fréttastofu í dag að borgin muni ekki hætta þróun og vinnu við uppsetningu Smartkortanna, hvað sem Strætó bs. muni taka ákvörðun um að gera. Hann sagði ýmis vandamál hafa komið upp við þróun þess en fyrirtækið sem hannar kerfið sé nú í eigu SPRON og hafi aldrei orðið gjaldþrota.

Ómar dregur í efa að kostnaður borgarinnar vegna þess sé kominn í 250 milljónir. Ómar sagðist ekki hafa nákvæmar tölur undir höndum að svo stöddu en sagðist vera að taka það saman og myndi upplýsa um kostnað borgarinnar vegna Smartkortanna á mánudag. Hann sagðist vonast til að hægt væri að taka kerfið í gang á næstu misserum en búið sé að fjárfesta í öllum búnaði, það eina sem vanti nú eru kortin sjálf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×