Innlent

Tvö björgunarskip kölluð út í morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Einn af björgunarbátum Landsbjargar. Myndin er úr safni.
Einn af björgunarbátum Landsbjargar. Myndin er úr safni.

Björgunarskipin Húnabjörg á Skagaströnd og Þór í Vestmannaeyjum voru kölluð út í morgun til að aðstoða báta sem að þurftu aðstoð. Húnabjörgin aðstoðaði fiskibátinn Hópsnes sem að strandaði á skeri skammt frá innsiglingunni til Skagastrandar.

Í fréttatilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu segir að aðeins 5 mínútur hafi liðið frá því tilkynningu um atviki þar til Húnabjörgin var komin að bátnum. Hópsnesið hafi síðan verið dregið af skerinu til hafnar. Ekki hafi orðið nein meiðsl á mönnum.

Þá var björgunarskipið Þór kallað út til að aðstoða trillu sem rakst á rekald milli Brands og Álfseyjar, með þeim afleiðingum að báturinn lak. Í tilkynningunni frá Landsbjörgu segir að Þór hafi verið kominn að trillunni tæpum 30 mínútum eftir að kallið kom. Annar bátur hafi verið nærstaddur og aðstoðað trilluna til hafnar en Þór fylgt henni eftir.

„Það er aðdáunarvert hversu hratt sjálfboðaliðar félagsins geta brugðist við þegar að kallið kemur. Þessi tvö útköll sem og útkallið í nótt þar sem að ferðamaður féll í Laxárgljúfur sýna hversu hratt björgunarsveitirnar geta brugðist við. Það vill stundum gleymast að allir félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg eru sjálfboðaliðar og þurfa að treysta á góðan skilning sinna atvinnurekenda. Atvinnurekendur eiga hrós skilið fyrir umburðalyndið en oft þarf björgunarsveitafólk að stökkva frá störfum sínum með engum fyrirvara," segir í tilkynningu frá Landsbjörgu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×