Innlent

Dæmdur fyrir tilraun til manndráps

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Maðurinn ógnaði lífi konunnar. Frá umsátri lögreglunnar við hús mannsins.
Maðurinn ógnaði lífi konunnar. Frá umsátri lögreglunnar við hús mannsins. MYND/HG
Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í dag Ólaf Þór Guðmundsson í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps með því að hafa skotið að eiginkonu sinni úr haglabyssu á Hnífsdal þann 8. júní síðastliðinn. Að auki var hann dæmdur til að greiða konunni skaðabætur að upphæð 1 milljón króna. Skotið fór í gegnum peysu konunnar við hægri öxl, auk þess sem hún hlaut tvær rispur í andliti.

Ólafur játaði fyrir dómi að hafa ætlað að hræða eiginkonu sína með byssunni umrætt kvöld en fullyrti að skotið hafi hlaupið úr fyrir slysni. Hann neitaði því ákæru um tilraun til manndráps. Í dómnum kemur hins vegar fram að rannsóknargögn málsins, framburður lögreglumanna og þolanda, fyrir­liggjandi læknisvottorð, auk athugunar dómsins á vettvangi og athafna ákærða eftir atvikið, sanni að ákærði hafi skotið af haglabyssu sinni vitandi vits.

Þá segir að eiginkona hans hafi verið mjög nálægt þegar hann hleypti af, en fram kom fyrir dómi að hættan af haglabyssu sé mest næst henni. Skýringar ákærða séu ótrúverðugar og verði að meta atvik svo að ákærði hafi ætlað sér að skjóta eiginkonu sína, en að sá ásetningur hafi ekki verið einbeittur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×