Innlent

Esjan brátt snjólaus sjöunda sumarið í röð

Enn leynist snjóskafl í Gunnlaugsskarði.
Enn leynist snjóskafl í Gunnlaugsskarði. MYND/HT

Allt bendir til þess að snjór hverfi alveg úr suðurhlíðum Esjunnar í sumar og verður það sjöunda árið í röð sem slíkt gerist. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, segir þetta mjög óvenjulegt og aldrei áður hafi snjór horfið úr hlíðum fjallsins svona mörg ár í röð.

„Það er nánast öruggt að síðustu snjóskaflarnir hverfa í kringum næstu mánaðamót," sagði Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, í samtali við Vísi. „Það verður sjöunda sumarið í röð eða öll ár aldarinnar."

Páll segir það einstakt að snjór hverfi úr hlíðum Esjunnar svona mörg ár í röð. Gamla metið hafi verið fimm til sex ár í röð. „Það eru engar heimildir um að snjór hafi horfið fyrir árið 1930. Frá sjöunda áratugnum og fram yfir 1990 hvarf snjórinn aldrei úr fjallinu."

Að sögn Páls má skýra þetta með hlýnandi loftslagi og bendir hann á að gróður sé einnig byrjaður að þoka sér ofar í fjallið. „Mér finnst ég sjá aukinn gróður í Hamrahlíðinni og svo í norðanverðu Úlfarsfelli. Þar eru skriðurnar orðnar mjög grónar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×